Hausttónleikar SK

Hausttónleikarnir okkar eru miðvikudaginn 5. nóvember.

Þeir eru í Háskólabíói og hefjast kl. 19:30.

Þema tónleikanna er „Alþýðleg tónlist“ og þar undir flokkast alþýðutónlist ýmissa þjóða frá ýmsum tímum. Tónlist frá Kóreu, Íslandi, Suður-Ameríku og Bandaríkjunum er meðal þess sem boðið verður upp á þetta miðvikudagskvöld. Íslensku þjóðlögin „Hættu að gráta hringaná“ og „Ég að öllum háska hlæ“ verða flutt af yngstu hljóðfæraleikurunum, meðan þeir eldri takast meðal annars á við ensk og keltnesk þjóðlög ásamt yngri tónlist eins og til að mynda tónlist gítarleikarans Santana. Viðamesta verk tónleikanna er „Variations on a Korean Folk Song“ sem John Barnes Chance skrifaði fyrir blásarasveit árið 1965 og hefur síðan verið flutt ótal sinnum, enda krefjandi og spennandi verk fyrir unga tónlistarmenn.

Um 140 börn og unglingar á aldrinum 9 -18 ára skipa þær þrjár hljómsveitir sem koma fram undir merkjum SK á tónleikunum. Hljómsveitin er ein stærsta skólahljómsveit landsins og hefur víða fengið viðurkenningar fyrir leik sinn. Síðasta vor hlaut hópur úr sveitinni verðlaun í sínum flokki á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, en á síðustu árum hafa allar þrjár sveitirnar unnið til slíkra verðlauna.  Framundan eru síðan fjölmargar spilamennskur á aðventunni fyrir hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir auk þess sem verið er að skipuleggja tónleikaferð til Spánar á sumri komanda.

Krakkarnir í Skólahljómsveit Kópavogs vonast til að allir fái eitthvað við sitt hæfi á tónleikunum á miðvikudaginn og skemmti sér vel. Stjórnendur hljómsveitanna eru Össur Geirsson og Þórður Magnússon.

Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 1.200  fyrir 16 ára og eldri, en ókeypis er fyrir börn 15 ára og yngri.