Baritónhorn (Euphonium)

Barítónhorn
Barítónhorn

Saga barítónhornsins hefst snemma á nítjándu öld. Forverar hans voru furðuhljóðfæri á borð við serpent og ophicleide en það leit út eins og afkvæmi fagotts og barítónsaxófóns. Það var framleitt í ýmsum stærðum og var í notkun fram á 20. öldina, aðallega í herlúðrasveitum. Adolphe Sax, sá sem fann upp saxófónana hannaði á þessum grunni hljóðfæri í mörgum stærðum fyrir herlúðrasveitir og voru sum þeirra í líkingu við barítónhornin sem við notum í dag. Hann kallaði þessi hljóðfæri Saxhorn og í Frakklandi tíðkast enn að kalla upprétt málmblásturshljóðfæri því nafni.

Árið 1843 framleiddi maður að nafni Sommer hljóðfærið „Euphonion“, sem einnig var kallað Sommerophone. Barítónhorn eru til í mismunandi stærðum og hafa mismunandi nöfn í ólíkum löndum. Það sem heitir Tenorhorn í Þýskalandi heitir Baritone í Englandi, en Baryton í Þýskalandi nefnist Euphonium í Englandi, en á Íslandi eru bæði þessi hljóðfæri oftast kölluð barítónhorn.

Barítónhorn með fjórum ventlum

Barítónhorn fást ýmist með þremur eða fjórum ventlum. Algengast er að nemendur hefji nám á hljóðfæri með þremur ventlum. Fjórði ventillinn auðveldar leik djúpra tóna og eykur nákvæmni í inntónun. Barítónhornið er mest notað í lúðrasveitum og ýmiskonar blásaratónlist en einnig er það stöku sinnum notað í sinfónískum verkum.

Vissir þú að orðið Euphonium er dregið af gríska orðinu Euphonia sem þýðir “hljómfagur”. Þess vegna var hljóðfærið stundum kallað „Fagurómi“ á íslensku

Hljóðfæramyndir birtar með leyfi YAMAHA – Instrument photos courtesy of YAMAHA