Fréttabréf haustsins 2022

Kæru nemendur í SK og foreldrar.

Hér eru helstu upplýsingar um starfið okkar í vetur. Við erum mjög spennt að koma aftur til starfa í fína húsnæðinu okkar í Tónhæð og hlökkum til að hitta alla nemendurna okkar.

Kennslan

Kennarar SK eru í stundatöflugerð fram til 25. ágúst og verða í sambandi við sína nemendur og foreldra þeirra til að setja niður hljóðfæratíma vetrarins. Við miðum við að kennsla hefjist skvt. stundaskrá fimmtudaginn 25. ágúst.

Fyrstu dagana gætu tímarnir þó eitthvað færst til á meðan við erum að festa stundaskrána.

Samæfingar

Samæfingar hljómsveitanna eru á sömu tímum og undanfarin ár. Vonandi geta allir mætt á þessum tímum í vetur því góð mæting er undirstaða framfara í samspili.

Æfingatímar er þessir:

A-sveit       mánudagar og fimmtudagar   kl. 15:50 til 16:40.

B-sveit       þriðjudagar og föstudagar   kl. 16:00 til 17:25.

C-sveit       mánudagar og fimmtudagar     kl. 17:00 til 18:50.

Þau börn sem hefja nám núna í haust byrja ekki á samæfingum fyrr en eftir áramót, því mikilvægt er að hafa náð grunnfærni á hljóðfærið fyrst. Kennarar meta það hvenær nemendur þeirra eru tilbúnir að takast á við samspilið og boða þá á fyrstu samæfinguna.

Þegar nýnemar byrja í samspili fara þau í A sveitina, en þar eru nemendur á fyrsta og öðru ári að spila saman.

Námsgjöld

Skólagjöld frá 1. janúar 2022 eru kr. 22.358 kr. á önn og hljóðfæraleiga er kr. 4.758 kr. á önn. Frístundastyrk má nýta á móti námsgjaldinu í gegn um Frístundagátt Kópavogsbæjar. Þetta er í síðasta sinn sem þessi leið er farin til að ráðstafa frístundastyrk, því umsjónarforritið (Nóri) verður lagt niður núna í lok ágúst.

Kynningarfundur fyrir foreldra nýnema

Þriðjudaginn 6. september kl. 20:00 verður haldinn kynningarfundur fyrir foreldra nýnema í húsnæðinu okkar, Tónhæð, Álfhólsvegi 102. Þar förum við yfir öll helstu atriðin í uppbyggingu starfsins okkar og tónlistarnámi barnanna. Mjög mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn nýrra nemenda komi á þennan fund til að kynna sér hvernig starfið er byggt upp og hvernig best er að aðstoða barnið við þetta krefjandi verkefni sem kallast tónlistarnám.

Kennarar

Hjá Skólahljómsveit Kópavogs starfa sextán menntaðir tónlistarkennarar sem leggja sig fram um að koma börnunum ykkar sem lengst á tónlistarbrautinni. Flestir kennaranna eru jafnframt starfandi tónlistarfólk og koma fram á ýmsum tónlistarviðburðum á hverju ári.

Kennarar SK þennan vetur eru.

 • Berglind Stefánsdóttir – flauta
 • Birgir Bragason – rafbassi
 • Björgvin Ragnar Hjálmarsson – saxófónn
 • Carlos Caro Aguilera – málmblástur
 • Dagný Marinósdóttir – flauta
 • Eiríkur Rafn Stefánsson – trompet
 • Halldór Hauksson – meðleikur
 • Eyrún Þóra Sigurjónsdóttir – klarínett
 • Jóhann Björn Ævarsson – horn
 • Jón Halldór Finnsson – málmblástur
 • Kjartan Guðnason – slagverk
 • Margrét Birna Sigurbjörnsdóttir – klarínett
 • Matthías V Baldursson – saxófónn
 • Sigurjón Bergþór Daðason – klarínett
 • Þráinn Hjálmarsson – tónfræði
 • Össur Geirsson – stjórnandi

Vetrarfrí

Vetrarfrí hjá SK fylgja vetrarfríum grunnskólanna í bænum. Fyrra vetrarfríið er dagana 24. og 25. október og það síðara er 23. og 24. febrúar. Engin kennsla er þessa daga.

Starfsdagar

Starfsdagar SK fylgja EKKI starfsdögum grunnskólanna. Þegar starfsdagar eru í grunnskólum, foreldradagar eða aðrir breyttir dagar er kennsla eins og venjulega hjá SK! Starfsdagar SK eru aðeins tveir á starfstíma skólans, þann 4. janúar og 21. apríl.

Stytting vinnuvikunnar

Í vetur verður sú breyting á starfinu okkar að ákvæði um styttingu vinnuvikunnar taka gildi og eru til reynslu í eitt ár. Starfsumhverfi tónlistarskólanna samrýmist engan veginn þeim viðmiðum sem gilda um þessa svokölluðu styttingu vinnuvikunnar. Því hefur sú leið verið farin í tónlistarskólum bæjarins að safna saman vikulegri styttingu yfir allt árið, (samtals fimm heilir vinnudagar) og dreifa þessum dögum yfir veturinn. Þess er gætt að þessir frídagar falli jafnt á vikudagana (einn mánudagur, einn þriðjudagur og svo framvegis). Þetta fyrirkomulag verður endurmetið að ári.

Helstu tónleikar vetrarins

Aðaltónleikar hvers árs eru haust- og vortónleikarnir okkar og þar koma allr sveitirnar þrjár fram og sýna afrakstur vetrarins. Fyrstu tónleikar nýnema eru venjulega vortónleikarnir, en við væntum þess að allir nýnemar og foreldrar þeirra mæti á hausttónleikana í nóvember til að upplifa stemminguna og sjá hvað bíður þeirra á vorönninni.

Hausttónleikar verða haldnir miðvikudaginn 2. nóvember kl. 19:30.

Vortónleikarnir verða í Háskólabíói sunnudaginn 5. mars kl. 14:00.

Einnig koma allar sveitirnar fram á jólatónleikum laugardaginn 17. desember.

Þessu til viðbótar eru ráðgerðir tónleikar í Hörpu þann 19. nóvember undir yfirskriftinni „Óskalaög“ þar sem fjölmargar íslenskar skólahljómsveitir koma fram með sína eigin dagskrá. Hver hljómsveit fær hálftíma fyrir sína tónleika á tímabilinu frá kl. 11 til 18.

Vinsamlega takið þessa daga frá fyrir okkur því það er mjög mikilvægt að allir hljóðfæraleikarar mæti á alla tónleikana!

Landsmót

Ráðgert er að C sveitin fari á landsmót til Akureyrar helgina 7. – 9. október. Landsmót lúðrasveita hafa legið niðri undanfarin ár vegna covid en núna eru þau loksins að fara af stað aftur og mikið tilhlökkunarefni að komast loksins að hitta aðrar hljómsveitir og spila saman. Verið er að skoða möguleika á landsmóti fyrir A og B sveitir næsta vor og við vonum innilega að það náist.

Æfingabúðir

Tvennar æfingabúðir eru fyrirhugaðar fyrir B og C sveitir í vetur. Við förum með hópana í Hlíðardalsskóla (rétt hjá Þorlákshöfn) og gistum í tvær nætur. Við leggjum af stað um fimmleytið á föstudegi og komum til baka um þrjúleytið á sunnudegi.

Æfingabúðir haustannar fyrir B sveit er helgina 30. sept. til 2. okt. og C sveitin fer helgina 23. til 25. sept.

Tónfundir

Tónfundir eru stuttir tónleikar þar sem nemendur fá æfingu í að koma fram og spila fyrir áheyrendur. Það verða tvær lotur af tónfundum hjá okkur í vetur, önnur lotan í lok nóvember/byrjun desember og hin í mars. Allir nemendur SK koma fram á tveimur tónfundum á ári, einum á haustönn og öðrum á vorönn.

Tónfræði.

Nemendur okkar læra almennt sína tónfræði í hljóðfæratímunum. Námsefnið okkar heitir Tónfimi og er ætlast til að nemendur vinni verkefni úr bókinni bæði heima hjá sér og í hljóðfæratímunum fyrstu þrjú árin.

Nemendum sem lokið hafa Tónfimi 3 býðst að halda áfram tónfræðináminu í hóptímum sem nefnast Hlustun og greining. Þar ljúka nemendur grunnprófi í tónfræðum. Þau sem ljúka grunnprófinu geta haldið áfram í hóptímunum og ljúka þá miðprófi í tónfræðum.

Þemavika

8. til 12. maí verðum við með þemaviku í Tónhæð. Þá er hefðbundin stundaskrá lögð til hliðar en öllum nemendum boðið að mæta í smiðjur og fræðast um tónlist á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt.

Nýtt umsjónarkerfi

Undanfarin ár höfum við notað umsjónarkerfi sem heitir School Archive (samsvarar Mentor hjá grunnskólunum). Foreldrar hafa getað skráð sig þar inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum og notað kerfið til að fylgjast með mætingum barna sinna og verkefnum, boða forföll og sitthvað fleira. Nú er verið að leggja það umsjónarkerfi niður og munum við því taka upp nýtt kerfi sem heitir Speed Admin. Við munum kynna það betur fyrir foreldrum í lok ágúst. Hægt verður að boða forföll í gegn um School Archive fram til 1. september en þá ætti nýja kerfið að vera komið í gagnið

Til að komast inn á School Archive er farið inn á schoolarchive.net með rafræn skilríki eða https://schoolarchive.is/innskraning/ og veljið „Þjónustugátt forráðamanna“ til að komast inn í kerfið.

Mætingar

Í SK er lögð áhersla á að nemendur mæti samviskusamlega í hljóðfæratíma, samæfingar og á alla aðra viðburði. Fari mæting niður fyrir 80% á nemandi það á hættu að missa plássið sitt. Beiðnir um leyfi úr tíma skulu koma frá foreldrum í gegn um SpeedAdmin og með eins góðum fyrirvara og hægt er. Miðað er við að tilkynningar berist ekki síðar en þremur klukkustundum fyrir tímann.

Nýtt húsnæði – Tónhæð

Við í skólahljómsveitinni erum ótrúlega ánægð með nýja húsnæðið okkar, Tónhæð og erum spennt fyrir starfinu í vetur. Okkur langar að biðja ykkur foreldrana að brýna fyrir börnum ykkar að ganga vel um húsnæðið, nota skóhillur og fatahengi í anddyri, muna að þvo hendur og spritta og ekki skilja eftir rusl á við og dreif heldur nota ruslafötur.

Heimasíðan

Við viljum benda ykkur á að nýta heimasíðuna okkar til upplýsingaöflunar. Við gerum okkar besta til að uppfæra síðuna og á henni er viðburðadagatal sem auðveldar ykkur að fletta upp á viðburðum vetrarins og fá upplýsingar um þá.

Á heimasíðunni má jafnan finna upplýsingar um það sem er á döfinni hjá sveitinni, skoða myndir úr starfinu og fleira og munum við reyna að hafa þar inni nýjustu upplýsingar og fréttir.

Þar er einnig skóladagatalið og viðburðadagatalið þar sem hægt er að fá upplýsingar um komandi viðburði.

Facebook

A, B og C sveitir eru með lokaða hópa á facebook sem heita A sveit SK, B sveit SK og C sveit SK. Þessir hópar er einungis hugsaðir fyrir nemendur og foreldra þeirra. Foreldrar geta fundið hópana á fb og sótt um að gerast meðlimir.

Að hafa samband

Við höfum oft verið spurð að því af hverju við svörum lítið í símann hér hjá SK en ástæðan er einfaldlega sú að hér er enginn ritari sem getur tekið símann og við erum oftar en ekki upptekin í kennslu eða við önnur störf. Því getur verið erfitt að ná símasambandi til okkar.

Ef þið viljið ná tali af okkur er best að hringja fyrir hádegið því þá höfum við oft tíma til að svara símanum. Síminn okkar er 441 9740.

Verið líka ófeimin við að senda okkur póst á netfangið skolahljomsveit@kopavogur.is

Forföll á að boða í gegn um SpeedAdmin umsjónarkerfið en ekki í síma eða með SMS eða Facebook skilaboðum.

Við hlökkum til samstarfsins í vetur!

Össur og Margrét og allir hinir líka.