Horn

Franskt horn

Flestir þjóðflokkar frummanna gerðu sér hljóðfæri úr hornum stórra dýra eins og nauta og hrúta.  Þegar menn fóru að gera hljóðfæri úr öðrum efnivið lá beint við að nota þau sem fyrirmynd.  Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að blásturshljóðfærin í dag líta út eins og þau gera þrátt fyrir mikla þróun og betrumbætur í gegn um aldirnar.

Á miðöldum og á endurreisnartímabilinu voru gerðar margar tilraunir í hljóðfærasmíði en sú lögun sem við kennum við franskt horn kom fram á 17. öld.  Þar sem hornið er mjög langt og mjótt (um 4 – 4,5 metrar) gátu hæfir hornleikarar spilað laglínur á háa tónsviðinu en það er þó ekki fyrr en að ventlar eru settir á hljóðfærið um 1820 að hægt var að nýta allt tónsviðið sem hornið hefur yfir að ráða.  Hornið varð síðan uppáhald margra tónskálda á rómantíska tímabilinu, sem notuðu það mikið í sinfóníum sínum og óperum.

Tvöfalt (F og B) horn

Horn eru til í nokkrum gerðum og eru F og B hornin algengust.  Einnig eru mikið notuð svokölluð tvöföld horn sem sameinar F og B hornin í eitt hljóðfæri og er skipt á milli þeirra með sérstökum þumalventli. 

Hjá Hjá Skólahljómsveit Kópavogs er algengast að nemendur byrji á B horni en færi sig yfir á tvöfalt horn þegar lengra er komið í náminu.

Hornin eru mikið notuð í allskonar klassískri tónlist en minna í popp og jazztónlist.

Munnsetning hornleikara er oft ólík því sem gerist hjá öðrum málmblásurum þar sem munnstykkið hvílir mun hærra á vörunum.  Mikilvægt er að hornnemendur tileinki sér rétta munnsetningu frá upphafi náms.


Hljóðfæramyndir birtar með leyfi YAMAHA – Photos courtesy of YAMAHA