23. nóvember

Nýjar sóttvarnarreglur fyrir Skólahljómsveitina tóku gildi 23. nóvember

Nú mega 25 hljóðfæraleikarar mæta á samæfingu í einu og er búið að skipta öllum hljómsveitunum, A, B og C niður í slíka hópa. Ekki þarf að viðhalda sömu hópaskiptingu og í grunnskólum en við pössum upp á að blanda ekki á milli hópanna okkar.

Grímuskylda er ekki lengur á nemendum í 4. til 7. bekk. Nemendur í 8. bekk og eldri eru áfram með grímuskyldu þar sem ekki er hægt að viðhalda tveggja metra reglu. Ekki er því grímuskylda í hljóðfæratímum eða á samæfingum þar sem tveggja metra fjarlægð er haldin.

Tónfræðihóptímar verða áfram í fjarkennslu til jóla.

Áfram er beðið um að foreldrar og aðrir gestir komi ekki inn í húsnæðið okkar, nema brýna nauðsyn beri til og þá með andlitsgrímur.

Í framhaldi af þessu hefur einnig verið liðkað til í grunnskólunum, svo kennarar okkar geta nú verið með staðkennslu í sumum grunnskólanna.

2. nóvember

Kennslutilhögun frá 3. nóvember

Nú höfum við kennarar og stjórnendur í SK ráðið ráðum okkar í dag og skipulagt kennsluna hjá okkur fyrir næstu tvær vikur.

Helstu atriðin eru:

Einkatímar í okkar húsnæði halda sér óbreyttir. Hljóðfæratímar með tveimur nemendum taka einhverjum breytingum.

Hljóðfæratímar á skólatíma verða í fjarkennslu til að byrja með. Við vonumst til að kennarar fá leyfi til að fara út í einhverja skóla fljótlega.

Samæfingar verða áfram í fjarkennslu.

Tónfræðihóptímar verða áfram í fjarkennslu.

Kennslutilhögun:

Smitvarnir

 • Kennslustofum verður skipt upp í tvö svæði með tveggja metra millibili, eitt fyrir kennara og annað fyrir nemandann. 
 • Allir snertifletir í kennslustofum verða sótthreinsaðir á milli nemenda. 
 • Við hvetjum nemendur til að vera ekki lengur í húsnæðinu en þörf er á, fyrir og eftir hljóðfæratímann. 
 • Kennarar sem hafa notað stílabækur sem samskiptaleið munu færa sig yfir í rafrænar lausnir.
 • Allir nemendur verða að þvo hendur og spritta við komuna í skólann.
 • Foreldrar og aðstandendur, vinir og vinkonur skulu almennt ekki koma í húsnæðið nema brýna nauðsyn beri til. 

Grímuskylda

 • Allir nemendur, líka þeir sem eru í 4. bekk, eiga að vera með andlitsgrímu við komu í skólann, á nemendasvæði og á göngum. 
 • Kennarar verða með andlitsgrímur á göngum og í sameiginlegum rýmum. 
 • Ekki er grímuskylda í kennslustofum enda tveggja metra nándarmörk haldin.
 • Æskilegt er að nemendur komi með sínar eigin grímur, en við verðum líka með grímur tiltækar fyrir alla.  

Samæfingar og tónfræðihóptímar

 • Samæfingar og tónfræðihóptímar verða í fjarkennslu.
 • Leitum leiða til að auka fjölbreytni í tímunum og virkni nemenda

Samkennsla.

 • Ekki er ljóst hvort við megum vera með tvo nemendur saman í tíma sem ekki koma úr sama grunnskólanum. Það skýrist vonandi á næstu dögum. Þangað til leita kennarar annarra leið með þá tíma.

Hljóðfæratímar á skólatíma.

 • Í reglugerð heilbrigðisráðherra er gert ráð fyrir að tónlistarkennarar megi fara út í grunnskólana til að kenna, með ákveðnum skilyrðum.
 • Við vonumst til þess að fá bráðlega leyfi til að vera með staðkennslu í grunnskólunum að einhverju leyti. Það takmarkast af því húsnæði sem í boði er í hverjum skóla, því skólarnir eru að nýta sitt húsnæði meira en áður þar sem skipta þarf upp bekkjum og færa til kennslu.

Tónfundir

 • Tónfundir verða ekki með venjulegu sniði á haustönninni. Við skoðum aðrar leiðir og verið getur að kennarar SK fari ekki allir sömu leið við útfærslu tónfundanna

Við í SK ætlum að takast á við þessar áskoranir með bjartsýnina að vopni og leggja okkar af mörkum til að kveða Covid drauginn í kútinn. Hljóðfæraleikurinn er tilvalin leið til að halda sér gangandi í kófinu og fátt betra til að létta lundina en að spila eitthvað skemmtilegt á hljóðfærið sitt ?

Starfsdagur 2. nóvember

Vegna hertra aðgerða í baráttunni við Covid verður starfsdagur hjá okkur í SK mánudaginn 2. nóvember, eins og í öðrum skólum bæjarins.

Öll kennsla og samæfingar falla því niður þann dag, á meðan við ráðum ráðum okkur og endurskipuleggjum kennslufyrirkomulagið.

19. október

Sóttvarnir til 3. nóvember

Staðan í sóttvarnarmálum hér í SK er sú að Skólahljómsveitin verður undir sömu reglum fram til 3. nóvember og voru í gildi í síðustu viku. Það er sem sagt gert ráð fyrir óbreyttu ástandi næstu tvær vikur.

Inn í þetta tímabil kemur svo vetrarfríið 26. og 27. október.

Þetta þýðir að bann er lagt við samæfingum og hópkennslu þennan tíma. Við erum þó að leita leiða til að vera með einhverskonar vinnu á samæfingatímum hljómsveitanna og að koma tónfræðihóptímum í fjarkennslu. Sem dæmi erum við með æfingar hljómsveitanna í gegn um Zoom fjarfundabúnað.

Áfram er okkur bannað að fara út í grunnskólana til að kenna og nemendur á skólatíma verða því áfram í fjarkennslu næstu tvær vikur.

Hljóðfæratímar í húsnæðinu okkar halda áfram óbreyttir.

Hausttónleikar 4. nóvember eru út úr myndinni miðað við þessar aðgerðir.

8. október: Samæfingar og hóptímar falla niður til 19. október

Á fundi með fulltrúum frá almannavörnum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu var lögð sú lína að skólahljómsveitir felli niður samæfingar og hóptíma í tónfræðum út þessa viku og alla næstu viku líka. Það er gert til að hindra blöndun nemendahópa úr mismunandi grunnskólum og er í samræmi við aðrar aðgerðir í sama tilgangi s.s. íþróttaæfingar

Við í SK förum að sjálfsögðu eftir þessum fyrirmælum eins og öðrum sem varða sóttvarnir, þó við hefðum að sjálfsögðu helst óskað þess að fá nemendur okkar á æfingar.

Það verða því engar samæfingar hjá A, B og C sveitum í dag og á morgun og ekki heldur alla næstu viku eða til 19. október.

Sama á við um hóptíma í tónfræði, þeir falla sömuleiðis niður til 19. október.

Hljóðfæratímar halda áfram þangað til annað verður ákveðið.

Skólabyrjun

Skólastarfið hjá okkur í SK hefst fimmtudaginn 27. ágúst. Þá eru fyrstu samæfingar hljómsveitanna og fyrsti kennsludagur hljóðfæratíma.

Kennarar okkar verða í sambandi við sína nemendur og foreldra þeirra til að finna heppilega tíma fyrir hljóðfæratímana. Búast má við einhverjum tilfæringum á tímum fyrstu vikuna meðan að stundataflan er að festast í sessi, því það getur verið talsvert púsl að koma þessu öllu saman.

Hér má finna nánari upplýsingar um starfsárið.

Skólaslit 28. maí

Þann 28. maí voru skólaslit hjá Skólahljómsveit Kópavogs. Að þessu sinni voru þau með allt öðru sniði en venjulega vegna eftirkasta Covid faraldursins. Foreldrar fengu ekki að vera á athöfninni og engar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur eins og tiðkast hefur hjá okkur. Það var hins vegar engin breyting á því allir voru kátir og glaðir; líka íbúarnir í Álfhólnum, því C sveitin fór út og spilaði tvö lög fyrir utan hólinn.

Við erum þó ekki komin í sumarfrí því við gerum ráð fyrir að hljómsveitirnar þrjár starfi fram til 17. júní.

Fleriri myndir eru á Flickr síðu SK: https://www.flickr.com/photos/skokop200/albums/72157714499783383