Starf SK á COVID19-tímum

Fylgist endilega með þessari síðu. Hér munu koma inn nýjar upplýsingar eftir því sem þurfa þykir.

29. apríl. -Hér eru svö við nokkrum algengum spurningum varðandi starf tónlistarskóla frá 4. maí:

Hvernig verður starfsemi tónlistarskóla eftir 4. maí?

Tónlistarskólar munu starfa með hefðbundnum hætti frá og með 4. maí nk. en þar verða áfram í gildi sóttvarnaráðstafanir og takmarkað aðgengi fullorðinna að byggingum.

Fjölda- og nálægðartakmarkanir verða ekki í gildi fyrir nemendur á leik- og grunnskólaaldri í tónlistarskólunum. Eldri nemendur og kennarar þurfa að gæta að 2 metra fjarlægð sín í milli og að hámarksfjöldi í hverju rými fari ekki yfir 50.

Mega nemendur sækja einkatíma í tónlistarskólum, að teknu tilliti til hreinlætis og fjarlægðar?

Já, ef regla um 2 metra fjarlægð milli fólks er virt.

Mega nemendur sækja hóptíma í tónlistarskólum, að teknu tilliti til hreinlætis og fjarlægðar?

Já, nemendur á leik- og grunnskólaaldri geta sótt tíma án takmarkana. Eldri nemendur þurfa að virða reglur um 50 fullorðna einstaklinga í sama rými og um 2 metra fjarlægð.

Hvaða sóttvarnaráðstafanir verða í gildi í tónlistarskólum?

Eftir 4. maí gilda almennar sóttvarnaráðstafanir um hreinlæti, sótthreinsun og notkun handspritts í öllum skólum. Mælst er til þess að sem fæstir fullorðnir komi í skólabyggingar og á það m.a. við um foreldra, iðnaðarmenn og almenna gesti. Hvatt er til sérstaks hreinlætis, sótthreinsunar og handþvotta, einkum á svæðum/flötum/búnaði sem margir ganga um.

Má halda tónleika á vettvangi tónlistarskólanna?

Mælst er til þess að skólar skipuleggi ekki fjölmennar samkomur. Um samkomur gildir að fullorðnir verða að virða fjöldatakmarkanir (ekki fleiri en 50 í sama rými) og halda 2 metra fjarlægð sín í milli.

Þarf að gera einhverjar ráðstafanir þar sem starfsemi tónlistarskóla og grunnskóla er í sama húsi?

Slíkt kallar ekki á sérstakar ráðstafanir en fullorðnir þurfa að gæta að fjölda- og nálægðartakmörkunum og huga að sóttvörnum og hreinlæti.

Mega tónlistarkennarar fara á milli skóla og kenna nemendum í grunnskólum?

Já, en mikilvægt er að þeir hugi að sóttvarnaráðstöfunum og fjarlægðartakmörkunum og nýti sem minnst sameiginleg rými í mismunandi skólum, s.s. kaffistofur og salernisaðstöðu. Starfsfólk sem sinnir viðkvæmum einstaklingum í návígi ætti að gæta sérstaklega að sér og leitast við að takmarka umgengni eins og kostur er.


27. apríl. – Frá 4. maí að telja gerum við ráð fyrir að starfsemi Skólahljómsveitar Kópavogs verði með eðlilegum hætti, að því undanskildu að nemendafjöldi á samæfingum verður eitthvað takmarkaður. Hljóðfærakennsla ætti að vera eins og venjulega.

Prófavika verður vikuna 11. – 15. maí.


30. mars. – Þessi síðasta vika fyrir páska hefði átt að vera prófavikan okkar en við höfum frestað henni þar til eftir páska og höldum uppi „kennslu eins og venjulega“ út vikuna og förum svo í páskafrí. Fyrsti kennsludagur eftir páskafrí er þriðjudagurinn 14. apríl.

Við sendum frá okkur tilkynningu um prófavikuna þegar búið er að finna henni tíma.


25. mars. – Þar sem verkfalli Eflingar hefur verið slegið á frest og þrif orðin viðunandi hjá okkur opnast á þann möguleika að vera með hljóðfærakennslu í húsnæðinu.

Í tilmælum frá heilbrigðisráðuneytinu segir: „…að tónlistarskólum sem standa utan hins hefðbundna skólakerfis sé, óháð aldri nemenda, heimilt að sinna kennslu í einkatímum þegar fjarkennslu verður ekki komið við. Það er háð þeim skilyrðum að fjarlægð sé a.m.k. 2 metrar milli nemenda og kennara og helst meiri og að gætt sé að þrifum og sótthreinsun, meðal annars á hljóðfærum og öðrum snertiflötum“.

Kennarar okkar mega því vera með kennslu í húsnæðinu okkar, meti þeir það þannig að fjarkennslan gangi ekki upp.

Hins vegar hefur fjarkennslan gengið vonum framar hjá okkur flestum og við erum áhugasöm um að nýta okkur þetta kennsluform eins langt og það nær.

Í þeim tilvikum að kennari boði nemendur í kennslu í húsnæðinu okkar styðjumst við ákveðnar umgengnisreglur:

  1. Einungis einn nemandi í tíma í einu.
  2. Einungis ein kennslustund per nemanda á viku (hin kennslustundin verður í fjarkennslu)
  3. Miðum við þriggja metra fjarlægð milli nemanda og kennara.
  4. Nemendur og kennarar pakka ekki upp á sama borði.
  5. Nemendur standa í tímanum, stólar verða ekki notaðir.
  6. Kennari sprittar hurðahúna, statíf, borð og annað sem nemandinn notar í tímanum, á milli kennslutíma.
  7. Nemendur mæti ekki hvor öðrum í dyrunum þegar skipt er um tíma.
  8. Kennslustund í húsnæðinu er háð samþykki foreldra í hverju tilviki.

Einnig viljum við biðja nemendur sem fyrr um að þvo hendur vandlega og spritta þegar þau mæta í hús.

Virðum tveggja metra fjarlægð á milli nemenda á meðan beðið er eftir að tími hefjist.

Foreldrar eiga ekki að fylgja nemendum inn til okkar.


24. mars – Tekin ákvörðun um að fresta prófavikunni þar til eftir páska. Prófavikan átti að vera frá 30. mars til 3. apríl. Í staðinn verður kennt „eins og venjulega“. Líkleg tímasetning fyrir prófin er síðasta vikan í apríl.

24. mars – Þar sem verkfalli Eflingar hefur verið frestað um sinn verður aftur farið að þrífa í húsnæðinu okkar. Það gæti orðið til þess að við opnuðum skólann okkar að einhverju leyti. Verið er að skoða hvernig það yrði framkvæmt og upplýsingum komið á framfæri við foreldra þegar það liggur fyrir.


Eldra – Húsnæði SK er lokað tímabundið vegna verkfalls Eflingar. Allir nemendur fá hljóðfæra- og tónfræðikennslu í fjarkennslu á meðan.

Hljómsveitaræfingar falla niður vegna samkomubanns

Stefnt er að því að kenna skvt. áætlun fram á vorið eins og kostur er. Við undirbúum próf, þemaviku og annað skvt. skóladagatali en færum svo til eða fellum niður eftir því sem tilmæli frá landlækni og neyðarstjórn Kópavogs segja fyrir um.

Frekar tómlegt hjá okkur núna.

Kennsla í dag, 16. mars

Í dag, mánudag 16. mars er kennsla skvt. stundaskrá að því undanskildu að samæfingar A og C sveita falla niður og tónfræðihóptímar hjá Svönu falla einnig niður.

Óvíst er með áframhaldandi kennslu vegna Covid-19 og verkfalls Eflingar. Foreldrar nemenda okkar verða látnir vita um leið og eitthvað skýrist í þeim efnum.

Vetrarfrí

Vetrarfrí hjá SK er dagana 5. og 6. mars.

Þá daga er engin skipulögð starfsemi hjá okkur, en þó getur verið að einstaka kennarar séu með aukatíma þessa daga. Þeir kennarar sjá sjálfir um að boða þá tíma.

Vortónleikar 1. mars

Árvissir og hefðbundnir vortónleikar Skólahljómsveitarinnar voru sunnudaginn 1. mars í Háskólabíói. Við buðum upp á spennandi tónlistarflutning um 170 barna og ungmenna og vonum að allir áhorfendur hafi skemmt sér vel.

Hausttónleikar 6. nóvember

Annar stærsti viðburður í starfi okkar í SK eru hausttónleikarnir sem að þessu sinni verða haldnir í Háskólabíói, miðvikudaginn 6. nóvember. Tónleikarnir hefjast kl. 19:30 og standa til um það bil korter yfir níu. Fjölbreytt tónlist verður í boði á tónleikunum og mun megnið af henni tengjast á einn eða annan hátt Barnasáttmála og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Vetrarstarfið að hefjast

Starfið okkar í SK er að fara af stað núna í lok ágúst. Fyrsti kennsludagur er mánudagurinn 26. ágúst og þann dag eru fyrstu samæfingar A og C sveita.

Kennarar SK verða í sambandi við nemendur sína til að finna góðan tíma fyrir hljóðfærakennsluna og við hlökkum til góðrar samvinnu og skemmtilegra stunda í vetur.

C sveit í tónleikaferð

C sveitin okkar fór í glæsilega tónleikaferð til Ítalíu, Króatíu og Slóveníu dagana 10. – 20. júní síðastliðinn. Við héldum sex vel heppnaða tónleika auk þess að fara í siglingu á Gardavatni, keppa í Go-cart, skoða Feneyjar og margt fleira.