Þverflauta

Þverblásnar flautur eru með elstu hljóðfærum, allt frá beinflautum frumþjóða. Frá öldunum fyrir Krist eru þekktar nokkurskonar þverflautur með sex götum en elstu áreiðanlegar heimildir um þverflautur eru frá 10.öld og þær urðu síðan ansi vinsælar í Evrópu á 12. öld.

Flauta
Venjuleg flauta fyrir byrjendur

Á þessum tímum voru flauturnar langoftast smíðaðar úr tré. Eftir að hljóðfærasmiðir úr Hotteterre fjölskyldunni í Frakklandi endurbættu smíði flautunnar og settu á hana einn klappa jukust vinsældir hennar. Allir vildu spila á flautu, meira að segja kóngarnir (Friðrik mikli, Prússakóngur var snjall á flautuna) og tónskáldin fóru að semja flautukonserta í gríð og erg.  Á Íslandi er svo getið um Pétur bónda sem lék á flautu við vikivaka-hátíð árið 1757.

Á síðari hluta 18. aldar voru gerðar ýmsar breytingar á flautunni og margar tilraunir gerðar með að smíða betri flautur, en það er ekki fyrr en Þeóbald Böhm gullsmiður og flautuleikari hannaði nýja flautu á fyrri hluta nítjándu aldar að flautan tekur á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Síðan þá eru flauturnar langoftast smíðaðar úr málmi, silfur er algengast en einnig er voða vinsælt að eiga hljóðfæri úr gulli (eða a.m.k. munnstykkið).

Fyrsti íslendingurinn sem var flautukennari að atvinnu var Árni Björnsson sem lærði í Manchester, en fyrstur til að útskrifast með einleikarapróf á flautu á Íslandi var Gísli Ferdinandsson, skósmiður og spaugari sem spilaði í 50 ár með Lúðrasveitinni Svan.

Piccoloflauta.

Piccoloflauta

Orðið þýðir “lítil flauta” og það er akkúrat það sem hún er. Hún byggir á sama Böhm kerfinu og þverflautan en er oftast smíðuð úr tré.  Hún hljómar áttund ofar en venjuleg flauta. Piccoloflautan hentar ekki fyrir byrjendur en þau sem eru lengra komin í námi eru oft spennt fyrir henni.