Trompet

Trompetinn þróast út frá veiðhornum fyrri alda.  Á miðöldum var hann oft notaður þegar kalla þurfti fólk saman, t.d. í hernaði og við konunglegar hátíðarsamkomur.  Trompetar þess tíma höfðu náttúrulega enga takka en til þess að gera trompetleikurunum kleift að spila fleiri tóna var stundum sett lengri baula milli munnstykkisins og hljóðfærisins.  Þetta hafði þann ókost að það tók svolitla stund að skipta um baulu.  Einnig voru gerðar tilraunir með að setja klappa á hljóðfærið en það er ekki fyrr en um 1820 þegar takkar (ventlar) voru settir á trompetinn að hann fer að taka á sig þá mynd sem hann hefur í dag.

B Trompet

Wagner var einna fyrst tónskálda til að gera hinum nýja trompet verulega hátt undir höfði í hljómsveitinni og síðan hefur tompetinn skipað veigamikinn sess í sinfóníuhljómsveitum heimsins.

Trompetinn er til í ýmsum gerðum.  B-trompetinn er algengastur og hentar best fyrir byrjendur.  Aðrar algengar tegundir eru C, D, Es og Pikkóló trompetar.  Munurinn á  þessum hljóðfærum er lengdin sem gerir tóninn misbjartan eftir stærð hljóðfæranna.  Minni trompetarnir (D, Es og pikkóló) eru einkum notaðir til að spila eldri trompetkonserta og nútímatónlist.  Pikkólótrompetinn, sem er minnstur, er helmingi styttri en B trompetinn og hljómar því miklu skærar. Í skólahljómsveit Kópavogs notum við eingöngu B trompeta.

Pikkólótrompet

Trompet er mikið notaður í jass- og popp tónlist og er því mjög fjölhæft hljóðfæri.  Frægir trompetleikarar síðustu aldar eru t.d. Louis Armstrong og Miles Davis í jasstónlistinni og Maurice Andre í klassíska heiminum.


Kornett

Kornett er mjög svipað trompet í útliti, en aðeins minna um sig og hentar betur fyrir byrjendur í trompetnámi. Allir nemendur Sk byrja á kornett og færa sig svo yfir á trompet á fjórða ári í námi.

Kornett

Orðið kornett (cornet)  þýðir “lítið horn” og var upphaflega notað yfir bogið hljóðfæri úr tré eða horni sem blásið var í með trompetmunnstykki. Það hljóðfæri var líka stundum kallað zink. Kornettið tilheyrir  trompetfjölskyldunni vegna lögunarinnar en er þó hljóðfærið skylt bæði F-horninu og flygilhorni vegna þess að þessi hljóðfæri eru öll “kónísk” eða keilumynduð.  Það þýðir að hljóðfærið víkkar út jafnt og þétt alla leið frá munnstykki að bjöllu á meðan trompetinn og básúnan eru sívöl, eru jafnvíð að innan um 2/3 af leiðinni frá munnstykkinu og víkka síðan hratt út að bjöllunni.  Vegna lögunar sinnar hefur kornettinn mýkri tón en trompetinn og vegna stærðarinnar er þetta mjög heppilegt hljóðfæri fyrir byrjendur.


Flygilhorn

Flygilhorn hefur stærri bjöllu en hin hljóðfærin í trompetfjölskyldunni og víkkar mun meira en kornettinn. Því er tónninn enn dekkri og hljómar ekki ólíkt horni.  Margir trompetleikarar í jass- og popp heiminum hafa flygilhorn sem aukahljóðfæri.  Þekktasti flygilhornleikari síðustu aldar er án efa Chuck Mangione sem lék jassblandaða popptónlist við þónokkrar vinsældir á síðari hluta aldarinnar.

Flygilhorn

Hljóðfæramyndir birtar með leyfi YAMAHA – Instrument photos courtesy of YAMAHA