Athugið: Innritun í SK er eingöngu opin fyrir nemendur sem eru að ljúka þriðja bekk grunnskóla í Kópavogi.
Hægt er að sækja um nám hjá Skólahljómsveit Kópavogs rafrænt á hverju vori. Umsóknarsíðan var opin vorið 2022 frá mánudeginum 2. maí og til kl. 13 á föstudeginum 6. maí.
Smelltu hér til að fylla út umsókn.
Öllum umsækjendum var úthlutaður stuttur viðtalstími (10-15 mín.) föstudaginn 6. maí á tímabilinu frá kl. 12 til 19. Nauðsynlegt er að mæta í viðtal til að umsóknin verði tekin til greina.
Svör um skólavist verða send foreldrum fyrir lok maímánaðar.
Langar þig að spila í Skólahljómsveit Kópavogs?

Hjá skólahljómsveitinni er hægt að læra á ýmis blásturshljóðfæri, rafbassa og trommur, en krakkarnir í hljómsveitinni gera ýmislegt fleira eins og að koma fram á tónleikum, fara í tónleikaferðir og spila í skrúðgöngum.
Að jafnaði eru um 175 nemendur í Skólahljómsveit Kópavogs á hverjum vetri og er þeim skipt í þrjár hljómsveitir eftir aldri og getu. Allir byrja samt bara í hljóðfæratímum og fara í hljómsveit eftir eina önn af hljóðfæranámi.

Í A-sveit eru yngstu hljóðfæraleikararnir, úr 4. – 6. bekk,
í B-sveit nemendur úr 6. – 8. bekk og
í C-sveitinni eru krakkar úr 8. – 10. bekk auk nokkurra eldri félaga.
Menntaðir hljóðfærakennarar sjá um kennsluna í skólahljómsveitinni og mörg þeirra starfa jafnframt við margskonar tónlistarstörf eins og að spila í leikhúsum, með sinfóníuhljómsveitinni eða með öðru tónlistarfólki.
Hljóðfærin
Hljóðfærin sem kennt er á heita básúna, túba, klarínetta, barítónhorn, trompet, saxófónn, horn, flauta, rafbassi og trommur og hægt er að fá hljóðfæri leigð hjá okkur gegn vægu gjaldi. (Smelltu á hljóðfæraheitin til að fá meiri upplýsingar um hvert hljóðfæri)
Kennslan
Kennt er á hljóðfæri samkvæmt námskrá tónlistarskóla og tónfræði er kennd í hljóðfæratímunum. Nemendur koma tvisvar í viku í hljóðfæratíma fyrstu árin (yfirleitt 30 mín hvort skipti) en eldri nemendur koma oftast einu sinni í viku og eru þá lengur í hvert sinn. Þessir tímar eru skipulagðir út frá stundatöflu hvers nemanda. Hóptímar í tónfræði eru í boði fyrir eldri nemendur. Nemendur SK eiga þess kost að ljúka miðprófi í hljóðfæraleik og tónfræðum á námstímanum.

Kennsla fer að mestu leyti fram í Tónhæð, nýju húsnæði Skólahljómsveitarinnar á Álfhólsvegi 102, en hluti kennslunnar fer einnig fram í sumum grunnskólum bæjarins. Til að byrja með eru nemendur einungis í hljóðfæratímum en þegar þeir hafa náð tökum á hljóðfærinu sínu bætast við tvær hljómsveitaræfingar á viku.
B og C sveitir fara í æfingabúðir yfir helgi á hverjum vetri. Oftast er farið í Hlíðardalsskóla og þá er æft linnulítið frá föstudagskvöldi fram að hádegi á sunnudegi.
Hljómsveitaræfingar eru á þessum tímum:
- A-sveit (byrjendurnir) – mánudagar og fimmtudagar kl. 15:50 – 16:40
- B-sveit – þriðjudagar og föstudagar kl. 16:00 – 17:25
- C-sveit (elstu krakkarnir) – mánudagar og fimmtudagar kl. 17:00 – 18:50
Hér má sjá elstu sveitina spila „Þursafóníu“ á afmælistónleikum Kópavogsbæjar í Kórnum:
Námsgjald ársins 2022 er 22.358 krónur fyrir hvora önn, að viðbættu 4.758 króna hljóðfæragjaldi á önn. Hægt er að nýta frístundastyrk Kópavogsbæjar á móti námsgjaldinu.
Innritun er einungis opin börnum í 3. bekk í Kópavogi.
Ekki komast allir að hjá okkur sem sækja um skólavist. Upplýsingar um hvernig við veljum úr umsóknum eru hér.
Það eru enn meiri upplýsingar um hljómsveitina hér.