Fyrsti kennsludagur hjá Skólahljómsveit Kópavogs haustið 2022 er fimmtudagurinn 25. ágúst. Allar nánari upplýsingar verða sendar foreldrum í vikunni á undan fyrsta kennsludegi.
Þemavika 2022
Eftir tveggja ára Covidhlé getum við aftur verið með almennilega Þemaviku í SK 🙂
Öll vikan frá 2. til 6. maí verður fyllt með margvíslegum smiðjum sem nemendur geta valið úr. Það er boðið upp á að spila á djembetrommur, ukulele og afrískar marimbur, fjölbreyttar samspilssmiðjur og kvikmyndasýningar,spurningakeppnir í tónlist, masterclassa og kynningar á fjölbreyttri tónlist og hljóðfærum.
Tónfræðihóptímar halda sér á sínum tímum í vikunni en hefðbundin hljóðfærakennsla og samæfingar víkja fyrir smiðjunum.
Innritun í SK fyrir veturinn 2022 – 2023
Vikuna 2. – 6. maí er opið fyrir innritun í Skólahljómsveitina fyrir börn sem eru að ljúka þriðja bekk grunnskóla í Kópavogi.
Innritunin er tvíþætt, annars vegar rafræn skráning og hins vegar stutt viðtal. Upplýsingar um innritunina má finna hér.

A sveit fór í vorferð í Grafarvog
A sveitin fór í skemmtilega vorferð upp í Grafarvog til að hitta kollega sína í Skólahljómsveit Grafarvogs. Við æfðum saman, spiluðum „örtónleika“ lékum okkur úti í góða veðrinu og fórum í keilu.
Myndir frá ferðinni má sjá hér. Getur tekið tíma að opna síðuna því það eru svo margar myndir.

Samkomutakmarkanir rýmkaðar
Það var okkur mikið gleðiefni að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar í skólastarfi frá 12. febrúar. Mikilvægast fyrir okkur er að nú er mögulegt að fá fulla mætingu á æfingar A og C sveita, en undanfarið höfum við þurft að skipta þeim hópum niður á æfingar vegna fjölda hljóðfæraleikaranna. Einnig auðveldar þetta okkur að halda veglega vortónleika þann 6. mars.
Nýtt ár hjá SK
Þá er árið 2022 komið á flug og vonandi verður það okkur öllum betra en síðasta ár.
Við leggjum af stað með kennslu skvt. stundaskrá að undanskildum nokkrum breytingum á æfingum A og C sveita sem eru of fjölmennar fyrir 50 manna fjöldamörkin.
Spilað með landsliðinu í hljóðfæraleik
Það var glæsilegt tækifærið sem fjórir flautuleikarar úr SK fengu í desember að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fernum jólatónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Þaulæft atriði undir stjórn Berglindar Stefánsdóttur kom mjög vel út og var þeim Aðalheiði Kristínu, Heiðdísi Hrönn, Hildi Örnu og Hrafnhildi Freyju til mikils sóma.

Jólatónleikar í Hörpu
Allar hljómsveitirnar okkar þrjár voru með „kósýkonsert“ í Hörpu þann 18. desember. Yndislegt að fá loksins tækifæri til að koma fram og spila jólalögin enda búið að fella niður öll gigg sem við áttum bókuð á aðventunni vegna covid.

Leikið í Snælandsskóla

Nokkrir nemendur SK úr Snælandsskóla léku á virðulegri athöfn í skólanum sínum miðvikudaginn 17. nóvember. Verið var að fagna því að skólinn er núna réttindaskóli UNICEF. Þau stóðu sig alveg óaðfinnanlega vel eins og þeirra var von og vísa.
Hausttónleikar allra sveita SK

Miðvikudaginn 3. nóvember var mikið fjör í Háskólabíói þegar allar hljómsveitirnar okkar þrjár komu fram og spiluðu fjölbreytta efnisskrá. Tónlist úr kvikmyndum, dægurtónlist og dansar, krefjandi konsertverk og léttar húmoreskur.