Greinasafn fyrir flokkinn: Tónleikar

Jólavertíðin

Það er margt í gangi hjá SK í desember, hljómsveitirnar að spila út um víðan völl og litlir hópar koma víða fram, m.a. í skólum bæjarins.

Jólatónleikar allra sveita eru í Hörpuhorni laugardaginn 17. desember og jólaskemmtanir í skólum 19. og 20. desember.

Hér er mynd af A sveit að spila í Smáraskóla við upphaf ljósagöngu nemenda skólans.

Vortónleikar 7. mars

Árlegir vortónleikar SK voru haldnir í Háskólabíói sunnudaginn 7. mars.

Tónleikarnir voru með talsvert öðru sniði en venjulega vegna sóttvarna. Í stað þess að allar hljómsveitir kæmu fram á einum tónleikum urðum við að skipta tónleikunum niður í þrennt, svo hver hljómsveit fékk sína eigin tónleika.

Hausttónleikar 6. nóvember

Annar stærsti viðburður í starfi okkar í SK eru hausttónleikarnir sem að þessu sinni verða haldnir í Háskólabíói, miðvikudaginn 6. nóvember. Tónleikarnir hefjast kl. 19:30 og standa til um það bil korter yfir níu. Fjölbreytt tónlist verður í boði á tónleikunum og mun megnið af henni tengjast á einn eða annan hátt Barnasáttmála og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

C sveit í tónleikaferð

C sveitin okkar fór í glæsilega tónleikaferð til Ítalíu, Króatíu og Slóveníu dagana 10. – 20. júní síðastliðinn. Við héldum sex vel heppnaða tónleika auk þess að fara í siglingu á Gardavatni, keppa í Go-cart, skoða Feneyjar og margt fleira.

Kvartett SK í Salnum

Kvartett SK sem skipaður er fjórum fræknum dömum úr B sveitinni okkar lék nokkur lög í Salnum þann 16. maí. Tilefnið var afhending Kópsins, viðurkenningu menntaráðs fyrir framúrskarandi verkefni í frístunda- og skólastarfi. Þær stöllur stóðu sig með mikill prýði eins og við var að búast af þeim.

Fyrsta verkefni ársins

Eins og mörg undanfarin ár var fyrsta verkefni Skólahljómsveitarinnar á nýju ári að spila á nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra. Þetta er alltaf skemmtilegur viðburður og við gerum okkar besta í að skapa áramótastemmingu með áramótalögum og líflegum klæðnaði.

Hausttónleikar 2018

Hausttónleikar SK voru venju samkvæmt haldnir í Háskólabíói, miðvikudaginn 7. nóvember.

Allar sveitirnar þrjár fluttu þar tónverk sem þau hafa verið að æfa í vetur og stóðu sig með mikilli prýði. Þetta voru fyrstu hausttónleikarnir þar sem B sveitin lék undir stjórn Jóhanns Björns Ævarssonar sem tók við sveitinni í haust af Þórði Magnússyni.

Vortónleikar 2018

Vortónleikar 2018 voru haldnir með pomp og pragt í Háskólabíói sunnudaginn 4. mars. Eins og alltaf komu allar sveitirnar þrjár fram á tónleikunum og sýndu sína bestu takta. Gleðin var við völd að vanda og hljóðfæraleikararnir almennt í góðu stuði.

C sveit fær viðurkenningu í Nótunni

C sveit SK tók þátt í svæðistónleikum Nótunnar í Salnum í Kópavogi sunndaginn 18. mars. Þau stóðu sig ótrúlega vel og fengu verðlaun fyrir framúrskarandi atriði í sínum flokki. Það þýðir að þau fara með atriðið sitt á lokahátíð Nótunnar sem verður í Eldborgarsal Hörpu þann 2. apríl næstkomandi. Við í skólahljómsveitinni erum afskaplega stolt af C sveitinni okkar og óskum þeim alls hins besta í Eldborg.