Eineltisstefna Skólahljómsveitar Kópavogs

Starfsfólk Skólahljómsveitar Kópavogs lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verði liðið í skólanum og unnið verði að því að starfsmenn, nemendur og  foreldrar geri sér grein því. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og brugðist verður við þeim málum sem upp kunna að koma án tafar og í góðri samvinnu. Frá skólabyrjun verði nemendum markvisst kennd góð samskipti og nemendur skulu hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita.  Gera skal nemendum grein fyrir því að það að skilja útundan  og virða aðra ekki viðlits er jafnmikið einelti og að hæðast að eða berja. Þannig verður stuðlað að vellíðan allra í sameiginlegu átaki. Skólahljómsveit Kópavogs skal vera öruggur og góður vinnustaður, þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju fyrir öllum.

Skilgreining

Einelti er endurtekið, andlegt eða líkamlegt ofbeldi og/eða félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps.

Einelti getur birst í mörgum myndum, það getur verið:

 • Líkamlegt, t.d. barsmíðar, spörk og hrindingar.
 • Munnlegt, t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
 • Skriflegt, t.d. skilaboð á samfélagsmiðlum, sms-skilaboð, krot og bréfasendingar.
 • Óbeint. t.d. baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahóp.
 • Efnislegt, t.d. eigum barns stolið eða þær eyðilagðar.
 • Andlegt, t.d. þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem gengur gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Kynferðisleg áreitni og allt annað andlegt og líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.

Hvernig er brugðist við einelti?

Öllum nemendum SK er gerð grein fyrir því að einelti er ekki liðið í SK og að þau eigi að leita eftir hjálp stjórnanda/kennara ef þau telja sig eða aðra verða fyrir einelti.

Ef upp kemur grunur um að barn sé lagt í einelti í SK, ber að láta stjórnanda eða aðstoðarskólastjóra vita strax. Stjórnandi/aðstoðarskólastjóri tala við þá nemendur sem um ræðir og láta kennara þeirra vita. Haft er samband við foreldra ef tilkynningin kemur ekki frá þeim. Rætt yrði við þá nemendur sem hlut eiga að máli, bæði þolanda/þolendur, geranda/gerendur og þá sem til sáu. Ef þetta dugar ekki til að eineltið hætti, höfum við, í samráði við foreldra, samband við grunnskóla viðkomandi og óskum eftir að málið verði tekið fyrir þar. Í grunnskólunum myndu deildarstjóri, námsráðgjafi, sálfræðingur og skólastjóri koma að málinu eins og þurfa þykir til að málið sé leyst á farsælan hátt. Verði enn ekki breyting til batnaðar er hægt að vísa málinu til Menntasviðs Kópavogsbæjar eða til fagráðs á vegum Menntamálastofnunar sem veitir aðstoð í erfiðum málum.

 • Tilkynning berst um hugsanlegt einelti frá þolanda, foreldri eða öðrum nemendum.
 • Ef tilkynningin hefur ekki komið frá foreldri, er haft samband við þá.
 • Haft er samband við foreldra meints geranda/gerenda.
 • Starfsmenn sem koma að nemandanum eru upplýstir um stöðu mála og beðnir um að fylgjast með.
 • Tekin eru viðtöl við alla sem að málinu koma, þolanda, meintan geranda/gerendur og jafnvel þá sem urðu vitni að eineltinu. Rætt skal við einn í einu, ekki hóp. Ekki má nota ásakandi tón í röddu eða orðum, heldur þurfa allir aðilar að fá að útskýra sína hlið á sinn hátt. Skrá það sem kemur fram í viðtölum og leyfa viðkomandi að lesa yfir og samþykkja. Gera ráðstafanir til að aðskilja þolanda og geranda á hljómsveitaræfingum og í tímum hjá hljóðfærakennara ef þurfa þykir.
 • Gefa gerendum tíma til að bæta ráð sitt undir vökulu auga kennara og stjórnenda.
 • Ef ekki verður breyting til batnaðar þrátt fyrir aðkomu starfsfólks SK, og með samþykki foreldra allra aðila, verði óskað eftir samvinnu og ráðleggingum frá eineltisteymi, nemendaverndarráði og/eða öðru fagfólki grunnskóla viðkomandi nemenda.
 • Áfram verði fylgst með hegðun geranda og þolanda, hvort þar séu eðlileg samskipti í gangi eða hvort grípa þurfi aftur inn í.
 • Ef ekkert hefur breyst og eineltið er enn til staðar þarf að vísa málinu áfram til Menntasviðs Kópavogsbæjar eða Menntamálastofnunar.