Túba

B túba

Túban var hönnuð árið 1835 af prússneska hljómsveitarstjóranum Wieprecht og hljóðfærasmiðnum Moritz í Berlín.  Þau bassahljóðfæri sem áður höfðu verið notuð í hljómsveitum eins og serpent og ophicleide nutu ekki mikilla vinsælda og því var brautin greið fyrir túbuna að slá í gegn sem aðal bassahljóðfærið. 

Fyrst var hún aðallega notuð í lúðrasveitum en hefur síðan öðlast sinn trygga sess í sinfóníu- og óperuhljómsveitum.  Wagner var hrifinn af túbunni og notaði hana á ýmsa vegu í sínum verkum, m.a. til að túlka ófreskjur og stigamenn.  Túban varð ómissandi í herlúðrasveitum og var einnig mikið notuð í jasstónlist í upphafi síðustu aldar, sérstaklega í dixieland hljómsveitum.

Sousafónn

Snemma fundu menn upp á því að breyta túbunni til að auðveldara væri að spila á hana í skrúðgöngum.  Þá varð til hljóðfæri sem nefnist helicon sem hvílir á öxlum hljóðfæraleikarans og er eins og vafið í kring um hann.  John Philip Sousa, marsakóngurinn ameríski endurbætti þessa hönnun og bjó til hljóðfærið sem við hann er kennt og heitir “Sousaphone”, eða súsafónn í daglegu tali.

Túbur eru til í ýmsum gerðum en algengastar eru B og Es túbur.  Í Skólahljómsveit Kópavogs byrja nemendur yfirleitt á því að læra á Es túbu en við notum líka B túbur, sem eru oftast hljómmeiri. Einnig eigum við Súsafóna til að nota í skrúðgöngum. Okkar sousafónar eru yfirleitt úr plasti til að auðveldara sé að halda á þeim.


Hljóðfæramyndir birtar með leyfi YAMAHA – Instrument photos courtesy of YAMAHA